Viðfangsefni hverju sinni

Apríl 2019Forget_me_not_flower

Nú eru það lífvísindin, útikennsla og lokamat sem á hug okkar síðustu vikur skólaársins.  Lífverur, flokkun þeirra, einkenni og gerð. Áskoranir og verkefni af ýmsu tagi í boði. Skoðum nærumhverfið vel og mikilvægt að huga að skóm og fatnaði því skjótt skipast veður í lofti.

Stóru krakkarnir í 10. bekk tengja saman það sem á dagana hefur drifið í náttúrufræðinni síðustu árin og glíma við lokaverkefni af ýmsu tagi.

Mars 2019 

Viðfangsefnið fram að páskum er heimabyggðin. Áhersla á uppsveitirnar og vatnasvæði Ölfusár og Hvítár. Við nálgumst viðfangsefnið frá ýmsum hliðum og ferðumst frá upptökum til ósa, fræðumst um jarðfræði, líffræði, eðlisfræði og tengjum umhverfi.  Við skiptum þessu niður á 4 vikur.  Fyrstu vikuna áhersla á jarðfræðina, þá næstu tengjum við lífríkinu, smá þemavika inn á milli, svo er ein vika með áherslu á eðlisfræði og meðal annars virkjanir til umfjöllunar og endum svo á umhverfisfræðslu og framtíðarsýn.  

Nemendur í 10. bekk taka þátt í ofangreindu en vinna jafnframt að lokamatsverkefni sem tengist heimabyggðinni, vistheimt á Biskupstungnaafrétti og fuglar við Laugarvatn.

Janúar 2019

Efnafræðin er viðfangsefnið á nýju ári. Allir bekkir glíma við verkefni tengd frumefnum og efnasamböndum. Kynnast lotukerfinu, efnahvörfum og stilla efnajöfnur.  Nokkrar léttar tilraunir eru gerðar í stöðvavinnu jafnhliða öðrum verkefnum bæði á blöðum og í tölvum.  Við leggjum áherslu á að þjálfa verklag, vinnubrögð og færni með því að gera stærri tilraunir og læra skýrslugerð.  Þetta ætti að duga okkur fram að vetrarfríi;)

Nóvember 2018

Sólin lækkar á lofti og í svartasta skammdeginu lítum við til fortíðar og horfum til himins, leggjum áherslu á ljósið…

8. bekkur –  bloggar um fyrirbæri í sólkerfinu – nemendur kynna sér forrit sem auðvelda okkur að þekkja stjörnumerki.
9. og 10. bekkur – nemendur vinna kynningarefni sem þau sýna hvert öðru og þeim sem heima sitja.  Horfum út í geim.  Nýtum okkur stjörnufræðiforritið Stellarium.

Október 2018

Nú í október ætlum við að fræðast um frumur, læra að gera tilraunir, skoða í smásjá og skila skýrslu. Elstu nemendurnir skoða vel frumuskiptingar, DNA og lögmál erfðafræðinnar.

Ágúst 2018

Þessar fyrstu vikur skólaársins eru 

nemendur að vinna mikið útivið í ýmsum verkefnum tengdum vistfræði og umhverfismennt. Við munum taka þátt í plastlausum september, fræðast um íslensk vistkerfi og leggja okkar að mörkum m.a. í tilefni af degi íslenskrar náttúru.